Tjarnarbío kort

The Diversion Sessions - Útgáfutónleikar

Útgáfutónleikar þann 9. júní


The Diversion Sessions - Útgáfutónleikar

Hljómsveitin The Diversion Sessions fagnar útgáfu hljómplötunnar The Truth the Love the Life í Tjarnarbíói þann 9. júní.

Platan komst ofarlega á alla helstu árslista síðasta árs og var valin plata vikunnar á Rás 2 þriðju vikuna í maí 2016.

Upphitun verður í höndum Marteins Sindra Jónssonar og félaga. Marteinn hefur verið iðinn að undanförnu að taka upp frumsamið efni og mun hann flytja efni af væntanlegri smáskífu.

Þóra Björk söngkona titillags plötunnar The Truth the Love the Life mun einnig koma og flytja eitt eða tvö lög fyrir gesti.

Á tónleikunum koma gestaspilara fram sem tóku þátt í að spila inn á upptökur. Um er að ræða aukaslagverk, bakraddir, blásturssveit, söngvara, fiðlu, sög, gospelkór, aukagítar, syntha og fleira.

Húsið opnar kl. 20 og tónleikarnir byrja kl. 21. Miðaverð er 2700 kr.

Blóðhófnir

Nýtt tónleikhúsverk byggt á ljóðabálki Gerðar Kristnýjar


Tónlistarhópurinn Umbra flytur nýtt tónleikhúsverk eftir Kristínu Þóru Haraldsdóttur, byggt á mögnuðum ljóðabálki Gerðar Kristnýjar, Blóðhófni, í sviðsetningu Sögu Sigurðardóttur.

Sýnt á Listahátíð í Reykjavík þann 1. júní kl. 20:30

Í Blóðhófni segir jötunmærin Gerður Gymisdóttir sögu sína af því er Freyr sendi skósvein sinn Skírni að sækja hana í Jötunheima, á hestinum Blóðhófni. Gerður vildi vera um kyrrt í Jötunheimum, þar sem árnar runnu um æðar hennar, en með ógnum og göldrum eru öll völd af henni tekin.  

Ástin komin 
með alvæpni 
Drengurinn dró fram 
sverð hert í hatri 
skeftirð skorið úr 
grimmd 

Blóðhófnir byggir á hinum fornu Skírnismálum sem skáldkonan Gerður Kristný flutti listilega í nútímalegt söguljóð og hlaut fyrir Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2010 í flokki skáldverka. Fyrir verkið var hún jafnframt tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2012. Umbra notar upprunahljóðfæri og raddir í tónlistarflutningi sínum. Í samstarfi við Sögu Sigurðardóttur skapa þær tónheim á sviði Tjarnarbíós þar sem goðsögnin um Gerði Gymisdóttur verður enn að nýju ljóði í hljóðfærum þeirra, röddum og hreyfingum.

Flytjendur: Alexandra Kjeld, kontrabassi, söngur; Arngerður María Árnadóttir, keltnesk harpa, harmóníum, söngur; Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir, barokkfiðla, söngur; Kristín Þóra Haraldsdóttir, barokkvíóla, söngur; Lilja Dögg Gunnarsdóttir, söngur 

Tónlist: Kristín Þóra Haraldsdóttir 
Texti: Gerður Kristný 
Sviðssetning: Saga Sigurðardóttir 
Myndvörpun: Tinna Kristjánsdóttir 
Aðstoð við búninga og myndræna framsetningu: Edda Guðmundsdóttir

Vi, De Drunknade (We, The Drowned)

Leiksýning sem byggir á vinsælu bókinni We, The Drowned!


Leikhópurinn Kompani Nord sýnir Vi, De Drunknade (We, The Drowned) í Tjarnarbíói helgina 28. og 29. maí kl. 20:30
Sýningin hefur fengið frábærar viðtökur á ferð sinni um Norðurlöndin!

Sýningar:
Laugardaginn 28. maí kl. 20:30
Sunnudaginn 29. maí kl. 20:30

Sýningin Vi, De Drunknade er uppsetning á samnefndri bók eftir danska rithöfundinn Carsten Jensen. Bókin hefur notið mikilla vinsælda, um allan heim, frá útgáfu árið 2006.

Stjórnandi leikhópsins og leikstjóri sýningarinnar er finnski leikstjórinn Arn-Henrik Blomqvist. Verkið fjallar um þrjár kynslóðir sjómanna og þá von og hörku sem ríkir hjá fjölskyldum í hinum harða heimi sjómennskunnar. Sýningin vinnur með sviðsleik, myndbönd og ljósmyndir. Þar mætast stórar hreyfimyndir og einfaldur leikur. Tónlist verksins er sérsamin og sækir innblástur sinn til sjómannasöngva Tom Waits.

Verkið er flutt á sænsku með enskum texta.

Sýningin er hluti af norrænni sýningarferð hópsins. Nú þegar hafa þau sýnt á Álandseyjum, í Svíþjóð, Noregi, Danmörku og Færeyjum við góðar viðtökur.

Leikstjóri: Arn-Henrik Blomqvist
Leikgerð: Arn-Henrik Blomqvist
Tónlist: Leif Jordansson
Leikarar: Jonas Kippersund, Marc Svahnström og Lidia Bäck

Viðburðurinn á Facebook

Loading...
Loading...