Ástin ein taugahrúga: Enginn dans við ufsaklett

Söguhetjan er með geðhvörf sem litar frásögnina þannig að úr verður rússibanareið á milli alsælu og dýpsta þunglyndis. En hvort sem persónan er stödd á toppnum eða botninum er kímnin aldrei langt undan - á þann hátt sem Elísabetu Jökuls einni er lagið.

Elísabetu þarf ekki að kynna fyrir landanum enda hefur hún fyrir löngu skrifað sig inn í sál þjóðarinnar með skáldsögum sínum, skáldævisögum og ljóðum - auk sviðsverka og gjörninga.


Undanfarið hefur hún vakið athygli fyrir skáldævisögur sínar og síðustu vetur hefur einleikurinn Saknaðarilmur snert hjörtu áhorfenda í Þjóðleikhúsinu.
Það má segja að Ástin ein taugahrúga sé hin fyrsta í röð þessara sjálfsævisagna, enda er þessi ljóð-saga, sem út kom árið 2015, byggð á hennar eigin ævi.
Þetta er einnig fyrsta óperan sem samin er við texta Elísabetar - en eflaust ekki sú síðasta.

Ljóðabókin Ástin ein taugahrúga vakti sterk viðbrögð þegar hún kom út, hlaut Fjöruverðlaunin og var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Tónlist Önnu Halldórsdóttur gefur textanum nýja vídd, er bæði grípandi og aðgengileg. Segja má að hún höfði til breiðs markhóps og fangi jafnt athygli áhugafólks um óperu sem og þeirra sem lítið - eða jafnvel aldrei - hafa hlustað á óperu fyrr en nú.

Aðstandendur:

Söngur: Tinna Þorvalds Önnudóttir

Sellóleikari: Júlía Mogensen

Tónskáld og tónlistarstjóri: Anna Halldórsdóttir

Saga og texti: Elísabet Jökulsdóttir

Leikstýra: Bergdís Júlía Jóhannsdóttir

Hreyfihönnun, ljósahönnun og tæknistjórn: Juliette Louste

Sviðs- og búningahönnun: Sara Hjördís Blöndal

Dramatúrgar: Anna Halldórsdóttir og Tinna Þorvalds Önnudóttir