Sæmundur Fróði
Sæmundur fróði - ópera
Sögurnar af Sæmundi fróða og viðureign hans við Kölska hefur orðið mörgum að yrkisefni, enda margt skondið sem skýtur upp kollinum í þeim. Þær hafa ratað í bækur, leikrit og söngva og nú er loksins komið að því að þær birtist á óperusviðinu. Þórunn Guðmundsdóttir semur bæði tónlist og texta, en Hrafnkell Orri Egilsson útsetur hljómsveitarpartinn. Það er sviðslistahópurinn Animato sem flytur óperuna, en þetta er í fjórða skipti sem hópurinn setur óperur Þórunnar á svið. Stutt er síðan uppfærsla hópsins á Hliðarsporum sló í gegn. Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir, en hún er einn reyndasti óperuleikstjóri Íslands og hlaut hún einmitt tilnefningu til Grímuverðlauna sem höfundur dans og sviðshreyfinga fyrir Hliðarspor. Sólveig Sigurðardóttir stjórnar svo einsöngvurum, kór og kammersveit.
Hafsteinn Þórólfsson túlkar Sæmund á ýmsum æviskeiðum, en það dugar ekkert minna en að hóa í þrjá söngvara til að fara með hlutverk Kölska, þar sem hann birtist í líki karlmanns, konu og barns – já og auðvitað brimils og flugu. Gunnlaugur Bjarnason, Björk Níelsdóttir og Halldóra Ósk Helgadóttir sjá um að gæða allar þessar hliðar Lúsífers lífi. Aðrir þátttakendur eru m.a. Guðrún Brjánsdóttir, Kristín Sveinsdóttir, María Konráðsdóttir og Vera Hjördís Matsdóttir svo nokkrir séu nefndir.
Sæmundur fróði Sigfússon (1056-1133) var goðorðsmaður og prestur í Odda á Rangárvöllum. Hann er frægur fyrir að hafa gengið í Svartaskóla, þar sem sjálfur Kölski á að hafa verið skólameistari og er ekki um að gera að trúa því sem skemmtilegra reynist? (Sannleikurinn er stórlega ofmetinn). Svo mikið er víst að Sæmundur fór ungur utan til náms og dvaldi þar lengi. Vegna lærdóms hans fékk hann viðurnefnið „hinn fróði“ og trúðu margir því að hann væri fjölkunnugur og ætti ýmis viðskipti við Kölska, jafnvel eftir að hann kom til Íslands.
Söguþráður óperunnar fylgir lífshlaupi Sæmundar frá því að hann er nemandi í Svartaskóla og þar til hann deyr, sjötíu og sjö ára gamall. Verkið er rammað inn með tilvitnunum í Sólarljóð, sem lengi voru eignuð Sæmundi.
Þættirnir – eða „myndirnar“ eru sjö talsins. Sjö er mikilvæg tala í mörgum trúarbrögðum; dauðasyndirnar eru sjö, en það eru einmitt þær sem Sæmundur þarf glíma við. Hann fellur iðulega í freistni en tekst að snúa á Kölska, sem telur sig eiga tilkall til Sæmundar. Á dauðastundinni stendur Sæmundur frammi fyrir þeirri spurningu hvort hann hafi ratað rétta vegu og breytt rétt í lífinu. Það eru því krefjandi spurningar sem skjóta upp kollinum, en framsetningin er létt og leikandi og tónlist og texti kalla fram það spaugilega í þjóðsögunum.
Óperan Sæmundur fróði verður frumsýnd þann fyrsta apríl, sem á ákaflega vel við, enda snýst verkið um lygar og pretti sem Sæmundur og Kölski beita óspart.