Töfraheimurinn internetið - Lalli Töframaður
,,Töfraheimurinn Internetið" er ný og spennandi leið í netöryggismálum á Íslandi. Þessi skemmtilega og fræðandi leiksýning hjálpar börnum að öðlast innsýn í kosti og galla internetsins og hvernig þau geta best nýtt sér það.
Sá hópur sem er berskjldaðastur fyrir þeim hættum sem geta leynst á internetinu eru börnin okkar og því er mikilvægt að leiðbeina þeim um hvernig internetið virkar; hvað ber að varast og hverjir möguleikarnir eru. Börn meðtaka upplýsingar best í leik og þegar framsetning á flóknum atriðum er sett upp á skemmtilegan og spennandi hátt eru þau líklegri til að meðtaka mikilvæg skilaboð.
Internetið er eðlilegur og óaðskiljanlegur hluti af æsku og uppeldi barna í nútímasamfélagi. Rannsóknir sýna að einelti og ofbeldishegðun þrífst vel á netinu og valda börnum vanlíðan og sorg. Það er eitt mikilvægasta verkefni uppalenda og samfélagsins sem heildar að fræða börnin okkar um möguleikana og ógnirnar sem internetið býður upp á og stuðla að ábyrgri og öruggri nethegðun; kenna þeim, fræða og þjálfa, bæði í þeim tilgangi að verjast einelti og taka ábyrgð á eigin hegðun
Mikilvægi þess að byrja snemma að fræða börn og auka færni þeirra í ábyrgri nethegðun er óumdeilt og mun endurspeglast í umhverfi þeirra, bæði innan heimilis og í skólastarfi.
Þetta einstaka verkefni hlaut stuðnings frá netöryggisstyrki Eyvarar
og er að hluta fjármagnað af Evrópusambandinu.