Sérstæðan

“Líkaminn fór að freyða. Minningar láku út um húðina og mynduðu landslag. Raddir risu upp eins og gufa úr jarðvegi. Og nú er ég hvergi”


Sérstæðan er þverfaglegt dansverk þar sem kóreógrafía, ljóð, tónlist og sviðsmynd renna saman í eitt. Í óræðri framtíð syngur Vera um tilvist sína eftir að hafa yfirgefið líkamann og hlaðið sér upp á alnetið. Hún lifir nú einungis í gegnum hugsanir sínar og minningar um heiminn sem var. Hvernig er tilvera án líkama, án holds og án snertingar? Hvernig verður heimurinn ef við getum ekki lengur skynjað hann og upplifað hluti á borð við sársauka og nautn? Og hvernig er dans án líkama? Sérstæðan er dansverk sem er að mestu flutt án líkama þar sem sviðsmynd og tækni á borð við hljóð, ljós, vörpun, vatn og reyk segja söguna.


Verkið sprettur úr hugmyndinni um sérstæðuna (e. singularity) – tilgátu innan tæknivísindanna um ímyndaðan tímapunkt í framtíðinni þegar tæknivöxtur verður orðinn svo óviðráðanlegur að hann yfirtekur tilveru mannslíkamans. Verkið veltir upp spurningum um framtíð líkamans. Munum við að endingu skilja endanlega við hann og eftirláta tækninni tilvist okkar? Munum við að endingu hætta að sjá og skynja hvort annað? Sérstæðan er óður til líkamans og skynfæranna og vangaveltur um hvað verður eftir ef þau hverfa. 

Rósa Ómarsdóttir er danshöfundur sem vinnur á mörkum kóreógrafíu, tónlistar og sviðsmyndar. Verk hennar eru þekkt fyrir tilraunakennda nálgun, sterka fagurfræði og ríka áherslu á skynjun. Hún hefur hlotið fjölda Grímutilnefninga og hafa verk hennar samtals hlotið fimm Grímuverðlaun, meðal annars fyrir tónlist, danshöfund og sviðsmynd.

Rósa hefur sýnt verk sín víða um heim m.a. á hátíðum, í listasöfnum, danshúsum og leikhúsum. Hún hefur einnig unnið með Íslenska dansflokknum og tekið þátt í alþjóðlegum rannsóknar- og listaverkefnum.

Rósa vinnur með líkama, tíma, tækni og hið ósýnilega. Verk hennar bjóða áhorfendum að nema staðar og sjá dans í nýju ljósi. Þeim hefur meðal annars verið lýst sem „fallegum heimi sem andar, titrar og lifir – þar sem manneskjan er aðeins hluti af einhverju stærra“ (Svenska Dagbladet) og sem sýningum sem „víkka út hugann og veita frelsi, gleði og skapandi rými“ (RÚV).

Aðstandendur
Höfundur og listrænn stjórnandi: Rósa Ómarsdóttir
Tónskáld: Sveinbjörn Thorarensen
Flytjandi: Inga Huld Hákonardóttir
Dramatúrg: Anna María Tómasdóttir
Leikmynd: Sean Patrick O’Brien
Lýsing: Katerina Blahutova
Búningar: Karen Briem
Framleiðandi: Ragnheiður Maísól Sturludóttir, MurMur Productions
Listræn ráðgjöf: Halla Þórðardóttir, Saga Sigurðardóttir og Katrín Gunnarsdóttir
Tæknimaður: Owen Hindley

Verkið er styrkt af Launasjóði listamanna og Sviðslistasjóði.