Dr. Gunni & Lúðrasveit Reykjavíkur
Lúðrasveit Reykjavíkur og Dr. Gunni taka höndum saman og halda stórtónleika í Tjarnarbíó.
Lúðrasveitin, sem hefur starfað óslitið frá 1922, hefur í gegnum tíðina unnið með mörgum söngvurum og lagasmiðum, en fáum eins afkastamiklum og Gunnari Lárusi Hjálmarssyni. Ferill hans spannar fjóra áratugi og hann er hvergi nærri hættur. Á efnisskránni eru lög frá ýmsum hljómsveitum sem Gunnar hefur samið fyrir. Þar á meðal eru Svarthvítur draumur, Bless, Unun, og auðvitað rokksveitin Dr. Gunni, sem var að gefa út sína áttundu plötu í haust: Er ekki bara búið að vera gaman?
Ásamt Dr. Gunna og Lúðrasveitinni syngur Salóme Katrín gestasöngvari, en hljómsveitarstjóri er Tumi Torfason. Tónleikagestir fá að heyra ódauðlegar lagasmíðar Dr. Gunna í flunkunýjum lúðrasveitarbúningi. Hljómleikar sem gleðja unga sem aldna og enginn vill missa af.
Ath. Frítt fyrir 16 ára og yngri