Brím
Ódauðleg list, auðvald og nepótismi eru meðal viðfangsefna í Brím, nýrri óperu Friðriks Margrétar-Guðmundssonar samin við líbrettó Adolfs Smára Unnarssonar. Eftir útskrift úr virtum listaháskóla í Amsterdam fær Nína Brím boð um að halda einkasýningu í þekktu galleríi heima á Íslandi. Hæfileikana sækir hún stutt, enda einkadóttir Karls Brím heitins, eins þekktasta listamanns þjóðarinnar frá seinni hluta 20. aldarinnar. Strax eftir opnunina renna þó á hana tvær grímur – í hverju nákvæmlega felst hrifning samlanda hennar á listaverkunum? Hvað er til sýnis og handa hverjum? Brím er fersk, áleitin og glettin samtímaópera með mörgum okkar hæfileikaríkustu söngvurum í aðalhlutverkum og frábæru listrænu teymi. Tilvalin upplifun fyrir óperuunnendur sem og áhugasama um formið.
Friðrik Margrétar hefur fest sig í sessi sem eitt okkar efnilegasta tónskáld, handhafi bæði Grímunnar og Íslensku tónlistarverðlaunanna. Adolf Smári hefur vakið athygli fyrir sýningar á borð við Nokkur augnablik um nótt, Kannibalen og Undir. Loks liggja leiðir þeirra saman á ný, en fyrsta ópera þeirra, Ekkert er sorglegra en manneskjan, hlaut sjö tilnefningar til Grímuverðlaunanna og hreppti tvö þeirra.
Aðstandendur:
Tónlist: Friðrik Margrétar-Guðmundsson.
Líbrettó og leikstjórn: Adolf Smári Unnarsson
Leikmynd og búningar: Auður Ösp Guðmundsdóttir.
Ljósahönnuður og tæknilegar útfærslur: Magnús Thorlacius.
Tónlistarstjóri: Sævar Helgi Jóhannsson.
Framleiðandi: Kara Hergils, MurMur Productions
Dramatúrg fyrir líbrettó: Júlía Gunnarsdóttir.
Söngvarar:
Áslákur Ingvarsson
Björk Níelsdóttir
Hanna Dóra Sturludóttir
María Sól Ingólfsdóttir
Ólafur Freyr Birkisson
Unnsteinn Árnason
Þórgunnur Arna Örnólfsdóttir
Mynd á plakati: Owen Fiene
Grafísk hönnun: Rakel Tómasdóttir
Sýningin er styrkt af Sviðslistasjóði og Launasjóði listamanna.