fbpx

Blóðuga kanínan

Fimbulvetur í samstarfi við Murmur
Frumsýnt vetur/vor 2022
Leikverk

Dísa rekur veitingarstað. Þar er alltaf opið og öll borð upptekin af Honum. Úti geisar stríð. Engin man hversu lengi það hefur geisað eða af hverju það hófst. En tvennt er vitað. Töframaðurinn þarf að leysa frá skjóðunni og barnið að finnast ef heimurinn á ekki að tortímast. Sirkusstjórinn skemmtir gestum veitingastaðarins með undarlegum kabarett og í kjallaranum búa kynjaverur. Vita þau um barnið? Vill barnið láta finna sig?

Dísa:

HANN!! Hann er mikill töframaður. Hann var ekki töframaður, en þegar hann fékk mig sagðist Hann hafa orðið töframaður. Hann á töfrasprota. Töfrahatt. Allt töfra. Hann er að passa að ég muni ekki segja það sem ég hef gleymt. Hann segist ætla að segja mér það seinna. Þegar ég hef lokað staðnum. En ég hef engan áhuga á að loka staðnum. Þetta er minn staður, minn veitingastaður og hingað kemur fólk til að tala um guð. Eða kom réttara sagt, já það komu hingað margir til að tala um guð en svo kom Hann og þá varð svo erfitt að fá borð. Ég er í vandræðum. Mér fannst svo gaman að tala um guð við gestina. Nú tala ég bara við guð í hljóði. Áður fyrr talaði ég oft við hann upphátt þegar ég var að dúkleggja eða taka af borðunum, GUÐ, sagði ég stundum. GUÐ. Er þetta sirkus eða veitingahús?  Spurði ég guð. Er þetta aldingarður eða öskuhaugur? Erum við kannski öll í sama herberginu? Og það var segin saga, þá opnaði guð glugga.

Blóðuga kanínan er súrrealísk kómedía um áföll og afleiðingar þeirra. Verkið er skrifað innan úr áfalli, af konu sem reynir að skilja sína eigin áföll og afleiðinga þeirrar. Enginn skoðar heiminn með sömu augum og Elísabet. Hún er listamaður tungumálsins sem kryfur málin með beinskeittum húmor og sársaukafullri hreinskilni.

Þetta verk á geðveikt erindi.

Leikarar: Aðalbjörg Þóra Árnadóttir, Borgar Ao, Davíð Freyr Þórunnarson, Íris Tanja Flygenring, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Þóra Karítas Árnadóttir & Ævar Þór Benediktsson
Leikmynd og búningar: Þórunn María Jónsdóttir
Tónlist og hljóðmynd: Borgar Ao
Lýsing: Friðþjófur Þorsteinsson
Dramatúrg. Matthías Tryggvi Haraldsson
Hreyfingar: Vala Ómarsdóttir
Framkvæmdarstjórn: Davíð Freyr Þórunnarson og Guðmundur Ingi Þorvaldsson
Framleiðandi: Fimbulvetur í samstarfi við Murmur
Leikstjórn: Guðmundur Ingi Þorvaldsson

Hönnun kynningarefnis: Þórunn María Jónsdóttir
Ljósmyndun kynningarefnis: Jónatan Grétarsson
Förðun fyrir kynningarefni: Rakel María Hjaltadóttir
Fyrirsæta: Elísabet Jökulsdóttir

Verkið er styrkt af Mennta og menningarmálaráðuneytinu.

X