Ljóða Slamm Borgarbókasafnsins

Ljóðaslamm Borgarbókasafnsins 2017: Láttu ljóð þitt skína!

Borgarbókasafnið hefur staðið fyrir Ljóðaslammi frá árinu 2008. Í átta ár var slammið fastur liður á dagskrá safnsins á Safnanótt, en það hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir störf í þágu íslensks máls á Degi íslenskrar tungu árið 2013. Í ár hefur slammið fengið andlitslyftingu og fer nú fram í nýjum búningi, en þetta er í fyrsta skipti sem Ljóðaslamm Borgarbókasafnsins fer fram utan menningarhúsa safnsins. Slammið sækir nú innblástur til evrópskrar slammhefðar og þátttökureglur bera þess merki.

Ljóðaslamm felst í flutningi frumsamsins ljóðs þar sem áherslan er ekki síður á flutninginn en á ljóðið sjálft. Þannig telst hefðbundinn ljóðaupplestur ekki til ljóðaslamms, heldur er áhersla lögð á ljóðaflutning sem sviðslist. Engin dómnefnd verður að störfum heldur munu viðtökur áhorfenda í sal skera úr um hvaða ljóð og flytjandi ber sigur úr býtum. Hávaðamælir mun aðstoða slammstýru til þess að skera úr um það.

Hámarksfjöldi þátttakenda er fimmtán – fyrstir skrá, fyrstir fá!

Keppt er í umferðum: þeir fimm flytjendur sem hljóta bestar viðtökur í fyrstu umferð halda áfram í annarri umferð. Að lokum keppa tveir til sigurs. Flytja skal nýtt ljóð í hverri umferð og því mæta keppendur til leiks með þrjá texta tilbúna til flutnings. Sjá reglur hér fyrir neðan.

Slammstýra Ljóðaslammsins er Vigdís Ósk Howser Harðardóttir. Vigdís er fulltrúi Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO í evrópska slammverkefninu Drop the Mic, skipuleggjandi ljóðakvölda Hispursmeyja og fyrrverandi Reykjavíkurdóttir.

Reglur Ljóðaslamms Borgarbókasafnsins 2017 eru eftirfarandi:
– Keppnin er opin einstaklingum, ekki liðum.
– Ljóð skal vera frumsamið af flytjanda. Minnisblað er leyfilegt á sviði.
– Ljóð skal taka hámark þrjár mínútur í flutningi.
– Keppt er í umferðum: þeir fimm keppendur sem hljóta bestar viðtökur í fyrstu umferð halda áfram í aðra umferð. Þeir tveir efstu keppa loks um sigurinn. Flytja skal nýtt ljóð í hverri umferð og skal hver keppandi því mæta til leiks með þrjá texta tilbúna til flutnings.
– Ekki er leyfilegt að notast við leikmuni eða hljóðfæri.

Skráning fer fram á vertumed@borgarbokasafn.is.

Nánari upplýsingar veitir:
Sunna Dís Másdóttir, verkefnastjóri, sunna.dis.masdottir@reykjavik.is, s. 411 6109 eða 699 3936.

  • LJÓÐA SLAMM
    30. 03 2017
    20:00 - 23:00

Sýningar

  • LJÓÐA SLAMM
    30. 03 2017
    20:00 - 23:00