UMGENGNISREGLUR

Almennar umgengnisreglur fyrir hópa, einstaklinga og leigutaka sem starfa í húsinu
 1. Leigutaki ber ábyrgð á uppsetningu og frágangi fyrir og eftir æfingar eða viðburði og skal gera það eftir samkomulagi við framkvæmdarstjóra og tæknistjóra. Húsið er fjölnota og yfirleitt margir aðilar að störfum þar á sama tíma. Því er nauðsynlegt að umgengni sé góð og í samráði við starfsfólk og aðra leigutaka. Skiljið við húsnæðið eins og þið mynduð vilja koma að því sjálf. Við biðjum ykkur um að láta okkur alltaf vita ef þið sjáið eða verðið vör við að einhverju sé ábótavant. Tjarnarbíó er heimili okkar allra og við berum ábyrgð á því saman.
 2. Leigutaki skal ganga vel um hið leigða húsnæði og búnað og sjá um að leigurýmið sé hreint og vel frá gengið í lok hvers æfingar/sýningardags. Leigutaki skal sópa leiksvið í lok hvers æfingar/sýningardags. Leigusali leggur til búnað og efni til ræstinga. Að sýningardegi loknum er leigutaka skylt að taka leikmynd niður og koma fyrir í leikmyndageymslu, nema annað sé tekið fram. Einnig skal hann ganga vel frá búningum og farða í þar til gerða geymslu. Ef þessu er ekki framfylgt kemur til aukagreiðsla vegna þrifa og/eða niðurtektar leikmyndar. Kostnaðurinn er tímakaup þeirra starfsmanna sem leigusali þarf að leggja til. Húsnæðinu ber leigutaka að skila hreinu og snyrtilegu.
 3. Leigutaka ber að fjarlægja leikmynd, leikmuni, búninga og annan búnað í hans eigu úr húsinu daginn eftir að leigutíma lýkur, nema að um annað sé samið sérstaklega. Annars getur leigusali rukkað leigutaka um þann kostnað sem fellur til við að losna við eða farga leikmynd og öðrum búnaði leigutaka.
 4. Leigutaki ber ábyrgð á þeim skemmdum sem hann eða gestir á hans vegum valda og skal greiða fyrir viðgerðir. Menningarfélag Tjarnarbíós ber ábyrgð á áhorfendum og gestum á viðburðum og sýningum.
 5. Leigutaki hefur aðgang að búningsherbergi, förðunarherbergi og leikmyndageymslu baksviðs, með þeim skilyrðum að leigutaki gangi vel um og beri virðingu fyrir húsnæði og munum annara. Tjarnarbíó útvegar læstar hirslur fyrir leigutaka undir verðmæti. Leigutaki ber ábyrgð á eigin leikmunum, búningum og öðrum verðmætum.
 6. Leigutaki hefur aðgang að sameiginlegu starfsmannaeldhúsi baksviðs. Þar gengur hver frá eftir sig og skilur við eins og hann vill koma að því. Ef að umgengni er ábótavant mun leigusali rukka fyrir frágang og þrif.
 7. Leigutaki hefur aðgang að interneti Tjarnarbíós. Halda skal niðurhali í hófi.
 8. Leigutaki hefur aðgang að sameiginlegri skrifstofuaðstöðu Tjarnarbíós, og fundarherbergjum eftir samkomulagi.
 9. Leigutaki og starfsfólk hans fær veitingar á sérkjörum á kaffihúsi/bar. Starfsfólki bars/kaffihúss er ekki heimilt að skrifa hjá aðilum sem leigja í húsinu, þar fara öll viðskipti fram gegn staðgreiðslu. Tjarnarbíó leggur til kaffi til uppáhellingar og te.
 10. Leigusali/Tjarnarbíó ber ábyrgð á því að miðla upplýsingum um starfsemi hússins til allra sem í húsinu starfa. Gildi, stefna og markmið Tjarnarbíós skulu ætíð hanga uppi í Tjarnarbíó og upplýsingar um starfsemi hússins og bókanir vera aðgengilegar á GoogleCalendar eða öðrum sambærilegum upplýsingaveitum.
 11. Tjarnarbíó er staðsett í íbúarhverfi. Heilbrigðiseftirlitið hefur sett hávaðatakmarkanir sem leigutaka ber að virða. Hávaðatakmarkanir í húsinu miðast við 96 db (meðaltalsmæling). Einnig ber leigutaka að ganga hljóðlega um ef að unnið er í porti eða Tjarnarbíó yfirgefið eftir kl. 22 á virkum dögum eða kl. 23 um helgar.
 12. Leigutakar, starfsfólk og aðrir sem í húsinu starfa skulu framfylgja öllum reglum og kröfum sem eldvarnareftirlit setur varðandi leikmynd, búninga og annan búnað tengdan æfingum og sýningum, fundum, gjörningum, vinnustofum eða öðru. Alls ekki má byrgja fyrir flóttaleiðir í sýningarrýminu né nokkru öðru rými. Stranglega bannað er að hylja eða hindra aðgang að neyðarljósum og slökkvitækjum. Leigutaki skal kynna sér rýmingaráætlun og eldvarnir hússins.
 13. Tjarnarbíó er heimili sjálfstæðs sviðslistafólks og grasrótarstarfs í listum. Okkar markmið er ætíð að sameiginlegir hagsmunir sjálfstæðra sviðslista til framtíðar séu í fyrirrúmi. Við biðjum alla sem í húsinu starfa í lengri eða skemmri tíma að stefna með okkur að því markmiði. Það skiptir miklu máli fyrir framgang lista í landinu að við eigum samastað og til þess að við getum rekið heimilið þurfa allir sem þar starfa að sýna ábyrgð, samkennd og heilindi.