UM TJARNARBÍÓ

Tjarnarbíó er staðsett í hjarta Reykjavíkur. Húsið var byggt árið 1913 og var starfrækt sem íshús til ársins 1942 þegar því var breytt í kvikmyndahús. Árið 1995 tók Bandalag sjálfstæðra leikhúsa (SL) við rekstri Tjarnarbíós af Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur og hefur rekið húsið síðastliðin ellefu ár fyrir Reykjavíkurborg. Húsnæðið hefur verið leigt út fyrir alls kyns starfsemi. Aðallega til atvinnuleikhópa en líka áhugaleikhópa, menntaskóla, nemendasýninga, til tónleikahalds og kvikmyndasýninga.

Sjálfstæðu leikhúsin reka Tjarnarbíó fyrir hönd Reykjavíkurborgar. SL hefur falið Menningarfélagi Tjarnarbíós (MTB) rekstur húsnæðisins fyrir sína hönd.

Núverandi stjórn MTB var kosin á aðalfundi 5. október 2015. Stjórn skipa Tinna Hrafnsdóttir (formaður), Hallfríður Þóra Tryggvadóttir (ritari), Hjörtur Jóhann Jónsson (meðstjórnandi) og Hannes Óli Ágústsson (varamaður). Hægt er að senda stjórn MTB og framkvæmdastjóra póst á netfangið tjarnarbio@tjarnarbio.is.

Tjarnarbíó opnaði aftur eftir endurbætur Reykjavíkurborgar 1. október 2010.

Tjarnarbíó er staðsett við Tjarnargötu 12, 101 Reykjavík. Það er beint á móti Ráðhúsi Reykjavíkur, við Tjörnina. Hér má sjá staðsetningu Tjarnarbíó á korti.